Ísfell gerir samning við Alcan á Íslandi um reglubundið eftirlit, viðhald og þjónustu
Undanfarin ár hefur Ísfell séð um viðhald og eftirlit með hífibúnaði fyrir Alcan. Að ósk Alcan voru gerðar ákveðnar formbreytingar á þessu eftirliti og það sett í fastari og nákvæmari skorður, þar sem allur hífibúnaður er á markvissan hátt yfirfarinn á 6 mánaða fresti af þeim starfsmönnum Ísfells sem eru þjálfaðir í slík verkefni.
Undir þetta eftirlit falla stroffur, lásar, hífislingar sem og tengdur búnaðar. Einnig mun Ísfell sjá um viðhald og viðgerðir á hífibúnaðinum og eiga nægar birgðir af varahlutum á lager fyrir allan algengasta hífibúnað Alcan.
Ísfell hefur átt gott samstarf við Alcan varðandi ráðgjöf og þjónustu fyrir hífibúnað. Fyrirtækið hefur t.d. haldið námskeið fyrir starfsmenn Alcan varðandi örugga notkun á hífibúnaði á tveggja ára fresti. Síðast þegar slík námskeið voru haldin árið 2006, var þáttaka starfsmanna á þriðja hundrað. Ísfell hóf að halda þessi sérhæfðu námskeið að ósk og frumkvæði Alcan og síðan hafa fjölmörg fyrirtæki sent starfmenn sína á námskeiðin og er vaxandi eftirspurn eftir þeim.
Að sögn Arthurs Guðmundssonar innkaupastjóra hjá Alcan, er þessi samningur liður í að tryggja enn betra eftirlit með hífi og festingabúnaði og tryggja þannig að starfsmenn geti treyst þeim búnaði sem þeir eru að vinna með. Slíkt sé mikilvægt til að lágmarka slysahættu.
Að sögn Stefáns Jónassonar sölustjóra Rekstar- og björgunar-vörudeildar Ísfells hafa þeir orðið varir við vaxandi vakningu hjá stjórnendum fyrirtækja varðandi mikilvægi þess að hífibúnaður sé reglulega yfirfarinn af fagfólki sem og að starfsmenn fái kennslu í öruggri notkun og meðferð hans.
Samstarf Ísfells og Alcan á þessu sviði styrkir Ísfell í því að bjóða viðskiptavinum sínum heildarlausnir og ráðgjöf varðandi hífi- og festingabúnað.