Áhugi á makrílveiðum í flottroll
Ísfell rekur sex netaverkstæði undir heitinu Ísnet sem hafa framleitt og selt á annan tug svokallaðra Ísnets yfirborðstrolla fyrir stór og smá skip. Birkir Agnarsson, framleiðslustjóri fyrirtækisins, segist hæstánægður með árangur veiðarfæranna í makrílveiðum og að þeim sem hafi notað troll fyrirtækisins hafi gengið mjög vel.
„Stærsta trollið sem Ísnet hefur framleitt er 2208 metrar í ummáli og það minnsta er 520 metrar í ummáli. Trollin eru öll útbúin með sexkants möskva fremst, í vængjum og hluta af belg, til þess að minnka togmótstöðu og auka veiðihæfni. Á trollin er notað segl, eða svokallaður flugdreki, á miðjuna á höfuðlínunni til þess að halda trollinu upp í yfirborðinu þar sem makríllin heldur sig. Trollin eru framleidd úr hágæða efnum frá viðurkenndum framleiðendum. Við getum því hiklaust sagt að Ísnets trollin séu sterk, þau endast vel og eru fiskin,“ segir Birkir.
Mikill áhugi minni skipa og dragnótabáta
Birkir segist finna fyrir miklum áhuga minni togskipa og dragnótabáta fyrir komandi makrílveiðar og segir Ísnet hafa sérhæft sig í hönnun og ráðgjöf fyrir minni skip og báta. „Þar kemur saman reynsla fyrri ára og eins hugbúnaður sem nýtist við hönnun og teikningavinnu. Með hugbúnaðinum vinnum við með togmótstöðu trollanna til þess að létta þau enn frekar í drætti, ásamt því að auka veiðihæfni og gegnumstreymi trollanna og spara olíu. Mörg af þessum minni skipum hafa aldrei farið á flottrollsveiðar áður og hafa ekki þau tæki sem stærri skip hafa um borð til að sýna afstöðu veiðarfæra við veiðar. Það eru því spennandi tímar framundan fyrir komandi makrílveiðar sem gaman verður að taka þátt í.“
Trollin eru sett upp á netaverkstæði Ísnets í Hafnarfirði en verkstæðið er að sögn Birkis vel útbúið til flottrollsgerðar. Ásamt því að búa til ný troll er Ísnet einnig með viðgerðarþjónustu á flottrollum af öllum stærðum og gerðum.
Allt til flottrollsveiða á einum stað
Með trollunum eru seldir flottrollshlerar frá Morgére í Frakklandi. Ísfell hefur um árabil verið í góðu samstarfi við Morgére og mörg íslensk togskip nota franska toghlera með góðum árangri. „Það má segja að á síðustu árum hafi togskipum sem nota eingöngu veiðarfæri frá Ísfelli fjölgað mikið. Það er algengt að skip noti Bridon togvír, Morgére hlera, höfuðlínukapal frá Rochester og svo botn- eða flottroll frá Ísneti. Fyrir útgerðarmenn er mikið hagræði af því að hafa kost á því að fá öll helstu veiðarfæri fyrir togskip á einum stað eins og Ísfell býður upp á,“ segir Birkir að lokum.